Handbolti

Úrslitaleikurinn í körfunni er víti til varnaðar

Atli Hilmarsson verður án dóttur sinnar Þorgerðar í leiknum á morgun en hún meiddist um síðustu helgi
Atli Hilmarsson verður án dóttur sinnar Þorgerðar í leiknum á morgun en hún meiddist um síðustu helgi Mynd/Anton Brink
Atli Hilmarsson þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar lætur sig það litlu varða þó lið hans sé talið sigurstranglegra í úrslitaleik Eimskipabikarsins á morgun.

Stjarnan á titil að verja í keppninni og hefur reynda leikmenn í sínum röðum, en Atli bendir á bikarúrslitaleik KR og Stjörnunnar í karlakörfunni um daginn sem dæmi um að allt geti gerst í bikarnum.

"Við eigum titil að verja og staða liðanna í deildinni er ólík, svo það er kannski eðlilegt að okkur sé spáð sigri. Leikir liðanna í deildinni hafa samt verið hörkuleikir þar sem við unnum heimaleikinn með heppnismarki á lokasekúndunum, svo staðan í deildinni segir ekkert til um hvernig þessi leikur þróast. Ég hugsa alltaf til KR í körfunni þegar ég heyri svona. Við vitum hvernig fór hjá þeim og ég held að það sé víti til varnaðar," sagði Atli. Hann ítrekar að sitt lið ætli að hafa gaman af leiknum.

"Það eru sex leikmenn í liðinu sem urðu bikarmeistarar í fyrra og hafa verið þarna áður og ég leita dálítið í þeirra smiðju til að miðla til hinna. Aðalatriðið er að reyna að hafa sem mest gaman af þessu. Við erum búin að vinna Val og Hauka á leið okkar í leikinn, svo við förum þarna til að skemmta okkur," sagði Atli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×