Fótbolti

Ferguson: Erum einni spyrnu frá Róm

Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson segir lítið vanta upp á hjá sínum mönnum í Manchester United svo þeir geti farið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar annað árið í röð.

United sækir Arsenal heim á Emirates í síðari leik liðanna í undanúrslitum í kvöld, þar sem United hefur 1-0 forystu frá fyrri leiknum.

"Við erum með forystu og erum bara einni spyrnu frá úrslitaleiknum. Ef við skorum, þarf Arsenal að skora þrjú mörk. Ég held samt að þetta verði jafn leikur. Þetta verður líklega mikilvægasti leikur liðanna til þessa, þó þeir hafi margir verið stórir fram að þessu," sagði Ferguson.

Ferguson langar mikið að brúa bilið milli Manchester United og Liverpool í Evrópukeppni. United hefur unnið þrjá Evróputitla gegn fimm hjá Liverpool.

"Það sem ég sé mest eftir er að hafa ekki unnið fleiri Evróputitla. Við eigum okkur ríka sögu í keppninni, en ekki jafn mikla og AC Milan, Liverpool og Bayern, sem öll hafa unnið fjórum sinnum eða oftar. Ég á tíma eftir til að ná þessum liðum, en hvort ég tek mér tíma í það er annað mál," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×