Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í GOG urðu að sætta sig við 24-23 tap gegn Århus GF í danska handboltanum í kvöld en sigurmark Árósarmanna kom á síðustu sekúndu leiksins.
Skemmst er að minnast sigurmarks Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar fyrir GOG á lokasekúndunum í sigurleik gegn Bjerringsbro-Silkeborg en nú var lukkan ekki á bandi GOG-manna.
Ásgeir Örn skoraði þrjú mörk fyrir GOG í kvöld en þetta var annað tap GOG í tíu leikjum í deildinni.
Þá skoraði Arnór Atlason tvö mörk í 34-26 sigri FCK gegn Tvis Holstebro.