Handbolti

Strákarnir eigi að stefna á verð­laun

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, fer ekki á EM en hefur trú á góðum árangri okkar manna.
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, fer ekki á EM en hefur trú á góðum árangri okkar manna. Vísir/Vilhelm

Kristján Örn Kristjánsson er á leið til Danmerkur til að fá leyst úr kviðsliti á komandi dögum á meðan félagar hans í karlalandsliðinu í handbolta fara á EM. Donni segir að íslenska liðið eigi að stefna hátt.

Kristján, eða Donni eins og hann er gjarnan kallaður, segir meiðslin hafa aftrað sér um hríð en hann hefur æft lítið á milli leikja í Danmörku að undanförnu. Hann hafi verið meðvitaður um að þau kæmu mögulega í veg fyrir þátttöku hans á EM.

Hann er á leið til Danmerkur í næstu viku og þarf að ákveða hvort hann fari í aðgerð strax eða hvort hann reyni áfram að spila í gegnum meiðslin með liði Skanderborgar sem hefur gengið vel. Donni hefur verip burðarás í liðinu sem situr í öðru sæti dönsku deildarinnar og stefnir á Meistaradeild.

Hann mun nú horfa á íslenska liðið í gegnum sjónvarpið meðan hann situr á sjúkrabekk. En hverju gerir hann ráð fyrir á komandi móti?

„Mér finnst við eiga skilið medalíu á þessu móti á miðað við leikmannahópinn sem við höfum í dag. Allir þessir leikmenn sem hafa verið efnilegir eru núna reyndir. Á síðasta móti var skrýtið að detta út með átta stig í milliriðli. Það var sögulegt hjá okkur og vonandi gerist það ekki aftur og við látum átta stig eða fleiri duga,“ segir Donni.

Munt þú sitja límdur við skjáinn í Danmörku?

„Ég verð það. Ég mun fylgjast með og vona innilega að þeir nái að komast upp á pall þó að ég verði ekki með. Auðvitað vona ég alltaf fyrir Íslands hönd að við náum þessum áfanga og geri sportið stærra fyrir alla Íslendinga.“

Fleira kemur fram í viðtali við Donna sem má sjá í heild í spilaranum að neðan.

Klippa: Donni ræðir meiðslin og segir landsliðið eiga að stefna hátt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×