Sex ár eru liðin frá því að íslenska landsliðið í knattspyrnu var taplaust í fjórum leikjum í röð, rétt eins og það er nú.
Ísland hefur í síðustu fjórum leikjum sínum gert tvö jafntefli og unnið tvo sigra. Fyrst gerði liðið 1-1 jafntefli við Slóvakíu í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í ágúst síðastliðnum en Slóvakar tryggðu sér einmitt sæti í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku í gær.
Þá næst gerði Ísland 1-1 jafntefli við Noreg í undankeppni HM 2010 í upphafi síðasta mánaðar. Í kjölfarið fylgdu tveir sigrar í vináttuleikjum gegn Georgíu (3-1) og Suður-Afríku (1-0).
Ísland var síðast taplaust í fjórum leikjum í röð árið 2003. Þá vann liðið Færeyjar í bæði hér heima og ytra, vann Litháen á útivelli og gerði markalaust jafntefli við Þjóðverja á Laugardalsvelli. Allt voru þetta leikir í undankeppni EM 2002.
Ísland mætir næst liði Íran í vináttulandsleik ytra en Ísland var síðast taplaust í fimm leikjum í röð árið 2001.
Þess má einnig geta að sigur Íslands á Suður-Afríku á þriðjudagskvöldið var 100. sigur liðsins frá upphafi. Liðið hefur alls leikið 376 leiki.