Körfubolti

Keflavíkurkonur fyrstar inn i átta liða úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Valgarðsdóttir skoraði 19 stig í dag.
Birna Valgarðsdóttir skoraði 19 stig í dag. Mynd/Stefán
Keflavíkurkonur urðu fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Subwaybikarsins í körfubolta eftir 70-61sigur á Grindavík í Toyota-höllinni í Keflavík í dag. Leikurinn hófst á óvenjulegum tíma eða klukkan 13.00.

Keflavíkurkonur voru með frumkvæðið frá byrjun, komst í 12-5 og var 18-10 yfir eftir fyrsta leikhluta. Grindavík minnkaði muninn í þrjú stig, 36-33, en Bryndís Guðmundsdóttir skoraði þriggja stiga körfu í lok hálfleiksins og Keflavík var sex stigum yfir í hálfeik, 39-33.

Birna Valgarðsdóttir var í miklu stuði í þriðja leikhlutanum þar sem hún skoraði 10 stig og hjálpaði Keflavíkurliðinu að ná upp góðu forskoti. Keflavík vann leikhlutann 19-11 og var því 14 stigum yfir, 58-44, fyrir lokaleikhlutann. Grindavík náði aðeins að minnka forskotið í fjórða leikhluta en sigur Keflavíkur var aldrei í hættu.

Grindavík var fyrir þennan leik búið að vinna báða leiki liðanna í vetur, fyrst 49-39 sigur í Poweradebikarnum í Keflavík og svo 67-63 sigur í Grindavík í Iceland Express deildinni um síðustu helgi.

Birna Valgarðsdóttir átti flottan leik og bætti fyrir leikinn um síðustu helgi þar sem hún skoraði aðeins 5 stig og klikkaði á 11 af 13 skotum sínum. Birna var með 19 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar en Kristi Smith var stigahæst með 20 stig. Bryndís Guðmundsdóttir var með 15 stig en þar af voru 13 þeirra í fyrri hálfleik.

Michelle DeVault skoraði 16 stig fyrir Grindavík, Jovana Lilja Stefánsdóttir skoraði 12 stig og Íris Sverrisdóttir var með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×