Framlengja þurfti fimm leiki af átta í 16-liða úrslitum VISA-bikarkeppni karla sem lauk í kvöld. Aldrei þurfti þó vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.
FH, Breiðablik, Fram, Valur og HK komust öll áfram eftir framlengdan leik en Keflavík, Fylkir og KR unnu sigur í venjulegum leiktíma í sínum leikjum.
Valur og FH tefldu á tæpasta vaði í sínum leikjum en Valur skoraði sigurmark sitt gegn KA á 117. mínútu. Alexander Söderlund skoraði svo sigurmark FH gegn ÍBV í Eyjum á 118. mínútu í gær.
Hjálmar Þórarinsson skoraði sigurmark Fram gegn Grindavík í gær strax á fyrstu mínútu framlengingarinnar.
Hetja Breiðabliks gegn Hetti frá Egilsstöðum var Arnór Sveinn Aðalsteinsson sem skoraði tvívegis fyrir sína menn í framlengingunni og tryggði Blikum þar með 3-1 sigur.
1. deildarlið HK gerði þó enn betur er liðið skoraði þrívegis gegn Reyni frá Sandgerði í framlengdum leik liðanna í kvöld. Samtals vann HK 5-2 sigur.
Úrslit leikjanna:
ÍBV - FH 2-3
Keflavík - Þór 2-1
Breiðablik - Höttur 3-1
Fram - Grindavík 1-0
Fylkir - Fjarðabyggð 6-1
Valur - KA 3-2
Víðir - KR 0-2
HK - Reynir, S. 5-2