Sóknarmaðurinn Adriano mætti ekki til æfinga hjá Ítalíumeisturum Inter í dag. Samband hans og Jose Mourinho hefur ekki verið upp á það besta síðustu mánuði en þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem hann sleppir æfingu.
Nokkrir ítalskir fjölmiðlar telja reyndar möguleika á því að Adriano gæti verið í meðhöndlun vegna meiðsla og því geti hann ekki æft. Hinsvegar hefur Inter ekkert viljað gefa upp um málið.
Aðrir brasilískir leikmenn Inter lentu á Malpensa flugvellinum í morgun eftir jólafrí en ekkert sást til Adriano. Framtíð hans er í mikilli óvissu. Talið var að Inter gæti reynt að lána hann nú í janúar en félagið hefur neitað því.