FL Group styrkti Sjálfstæðisflokkinn um þrjátíu milljónir króna aðeins nokkrum dögum áður en lögum var breytt um hámarksframlög til stjórnmálaflokka. Skattrannsóknarstjóri hefur reikning um þennan styrk meðal annars til rannsóknar.
Fréttstofan hefur séð gögn sem sýna að 29. desember árið 2006 hafi 30 milljónir króna verið yfirfærðar af reikningi FL Group inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Heimildir fréttastofu herma jafnframt að reikningur fyrir greiðslunni hafi ekki verið gefinn út fyrr en einhverjum mánuðum síðar, eða þegar nokkuð var liðið á árið 2007. Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group, mun hafa gefið vilyrði fyrir greiðslunni, samkvæmt sömu heimildum. Málefni FL Group eru nú til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra, en umræddur er reikningur er meðal þess sem til skoðunar er.
1. janúar 2007, fáeinum dögum eftir millifærsluna, tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en sem næmu 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðila. Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn hafi ekki frekar en aðrir flokkar verið með opið bókhald fyrir þann tíma. Flokkurinn hyggist að svo stöddu ekki tjá sig um einstök fjárframlög til flokksins sem áttu sér stað fyrir setningu laganna.
Kjartan Gunnarsson, einn helsti bandamaður Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, starfaði við hlið framkvæmdastjóri flokksins, Andra Óttarssyni.
Rifja má upp að Davíð líkti FL Group meðal annars við bandaríska stórfyrirtækið Enron og fjármálahneykslið í kringum það á sínum tíma - og nefndi félagið Flenron. Því má jafnframt halda til haga að Baugur var á þessum tíma í hópi helstu hluthafa í FL Group.
Það skal tekið fram að Jón Ásgeir Jóhannesson einn stærsti hluthafi FL Group, er aðaleigandi 365 miðla, sem rekur meðal annars Stöð 2.