Heimildarmenn Vísis innan úr Sjálfstæðisflokknum segja að þeir búist við þvi að Kristján Þór Júlíusson muni bjóða sig fram til formanns á landsfundi flokksins um næstu helgi.
Þrýst hefur verið á Kristján undanfarna daga að bjóða sig fram og mun sá þrýstingur hafa aukist til muna eftir að viðtal við Bjarna Benediktsson birtist í Fréttablaðinu í gær.
Bjarni er sá eini sem tilkynnt hefur um framboð til formanns en ummæli hans í Fréttablaðinu um Evrópusambandið og afnám verðtryggingar féllu í grýttan jarðveg hjá ákveðnum hópi flokksmanna. Kristján Þór mun tilkynna um ákvörðun sína klukkan 16:15 í dag.
Það verður þá í fyrsta skiptið sem tekist verður á um formannsembætti Sjálfstæðisflokksins síðan 1991 eða í átján ár.