Fótbolti

Lyn í miklum fjárhagsörðugleikum - Indriði á leið burt?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Indriði er orðaður við Brann og Vålerenga.
Indriði er orðaður við Brann og Vålerenga.

Svo gæti farið að norska liðið Brann verði með alíslenska varnarlínu. Norskir fjölmiðlar greina frá því í dag að landsliðsmaðurinn Indriði Sigurðsson sé á óskalista félagsins en hann er samningsbundinn Lyn.

Lyn á í mjög miklum fjárhagsörðugleikum og þarf að selja leikmenn. Félagið hefur samið við leikmenn sína um 7,5% launalækkun og þá sjá leikmennirnir sjálfir um að þrífa æfingafötin og færri ferðast með liðinu í útileiki. Allt er gert til að spara hverja einustu mögulegu krónu.

Lyn situr í botnsæti norsku úrvalsdeildarinnar. Indriði er talinn líklegur til að vera fyrsti leikmaðurinn til að hverfa á braut en Vålerenga hefur einnig áhuga á að fá hann. Tveir aðrir Íslendingar eru á mála hjá Lyn, Theodór Elmar Bjarnason og markvörðurinn Arnar Darri Pétursson.

Brann situr í sjötta sæti norsku deildarinnar en hjá liðinu eru Íslendingarnir Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Birkir Már Sævarsson, Gylfi Einarsson og Ármann Smári Björnsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×