Fótbolti

Pique: Við erum ekki að fara að rústa þeim aftur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gerard Pique.
Gerard Pique. Nordic photos/AFP

Varnarmaðurinn Gerard Pique hjá Barcelona aðvarar þá sem halda að liðið eigi eftir að endurtaka leikinn frá síðasta tímabili og vinna stórsigur gegn Real Madrid þegar liðin mætast í „El Clásico" á Nývangi á sunnudag en Börsungar unnu leik liðanna 2-6 á Bernabeu-leikvanginum á síðasta tímabili.

Pique var á meðal markaskorara Barcelona í 2-6 leiknum en telur að það afrek að rúlla Real Madrid upp verði ekki endurtekið í bráð.

„Þeir sem halda að við séum að fara að skora helling af mörkum gegn þeim geta bara gleymt því. Við erum ekki að fara að rústa þeim aftur en við stefnum að sjálfsögðu að sigri og vonandi gengur það eftir. Það sem gerðist á síðasta tímabili er ekki að fara að gerast aftur í langan, langan tíma held ég.

Real Madrid er með alveg nýtt lið núna og það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer. Sem ævilangur aðdáandi Barcelona veit ég nákvæmlega hvað „El Clásico" leikirnir þýða og bæði liðin munu spila til sigurs og þetta verður frábær skemmtun," segir Pique í viðtali við Marca.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×