Sport

KR tryggði sér 3. sætið með frábærum seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Einarsdóttir lék vel með KR í kvöld.
Helga Einarsdóttir lék vel með KR í kvöld. Mynd/Vihelm

KR-konur unnu fjórtán stiga sigur á Hamar, 62-48, í lokaumferð Iceland Express deildar kvenna í körfubolta í kvöld og tryggðu sér þar með þriðja sætið í deildinni. Það leit lengi vel út fyrir að gestirnir úr Hveragerði ætluðu að fara heim með bæði stigin því Hamar var tólf stigum yfir í hálfleik, 20-32.

KR-konur tóku hinsvegar öll völd í seinni hálfleik sem KR vann með 26 stiga mun, 42-16. Hamarsliðið skoraði ekki fyrstu sjö mínútur hálfleiksins og áttu engin svör við frábærri vörn heimastúlkna.

Sigrún Ámundadóttir spilaði leikinn þrátt fyrir fréttir um annað og var stigahæst með 13 stig á 21 mínútu. Besti maður liðsins var þó Helga Einarsdóttir sem var með 11 stig og 9 fráköst. Margrét Kara Sturludóttir skoraði 12 stig og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 8 stig og 12 fráköst.

Hjá Hamar skoraði Lakiste Barkus 15 stig þar af 13 þeirra í fyrri hálfleik. Julia Demirer var síðan með 10 stig og 20 fráköst.

Sigur KR þýðir að liðið mætir Grindavík í 1. umferð úrslitakeppninnar en Hamar tekur á móti Val. Úrslitakeppnin hefst í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×