Svisslendingurinn Roger Federer skráði nafn sitt með gylltu letri í tennissöguna í dag. Þá tókst honum loksins að vinna opna franska meistaramótið.
Federer hefur þar með unnið öll risamótin í tennis og í heildina hefur hann unnið fjórtán risamót. Hann jafnaði með titlinum í dag met Bandaríkjamannsins Pete Sampras sem hafði einum tekist að vinna fjórtán risamót.
Federer hafði þrisvar áður tekist að komast í úrslit mótsins en tapaði fyrir Rafael Nadal í öll skiptin.
Andstæðingur Federer í dag var Svíinn Robin Söderling. Hann átti ekki roð í Federer í dag sem vann í þremur settum og kláraði leikinn á innan við tveim tímum.
Federer átti erfitt með að fela tilfinningar sínar eftir sigurinn og grét sigurtárum þegar bikarinn var í hendi og þjóðsöngur Sviss var leikinn.
Það var Andre Agassi sem afhenti Federer bikarinn en hann er síðasti maðurinn sem vann öll fjögur risamótin.