Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum eru engir ítalskir leikmenn meðal þeirra sem eru tilnefndir til Gullboltans svokallaða, verðlaunin sem France Football veitir knattspyrnumanni ársins í Evrópu.
30 leikmenn eru tilnefndir árlega og samkvæmt frétt puntusport.net mun enginn Ítali vera í þeim hópi í ár. Aðeins tveir leika í ítölsku úrvalsdeildinni - Samuel Eto'o hjá Inter og Diego, leikmaður Juventus.
Eto'o er þó fyrst og fremst tilnefndur fyrir afrek sín með Barcelona á síðasta tímabili og þá var Diego lykilmaður í liði Werder Bremen sem komst í úrslit UEFA-bikarkeppninnar.
Gianluigi Buffon hefur verið talinn einn besti markvörður Evrópu undanfarin ár en hann mun ekki vera tilnefndur í ár.
Það eru blaðamenn víða um Evrópu sem hafa atkvæðisrétt í kjörinu.
