Handbolti

Ásgeir Örn fór á kostum með GOG

Eiríkur Stefán Ásgiersson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Stefán

Ásgeir Örn Hallgrímsson gerði sér lítið fyrir og skoraði þrettán mörk fyrir GOG sem vann sigur á Viborg í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta, 30-25, á útivelli.

GOG hefur því unnið alla þrjá leiki sína til þessa í úrslitakeppninni sem fer fram með nýju sniði í ár. Liðunum átta sem komust áfram í úrslitakeppnina var skipt í tvo riðla. Efstu liðin í riðlunum mætast svo í úrslitaviðureign um danska meistaratitilinn.

GOG varð í áttunda sæti deildarinnar og hefur því gengi liðsins komið nokkuð á óvart. Liðið hefur þó átt í miklum meiðslum í vetur og árangur liðsins því langt undir væntingum í deildarkeppninni.

Deildarmeistarar Álaborgar töpuðu hins vegar sínum öðrum leik í úrslitakeppninni í gær, í þetta sinn fyrir Kolding, 35-34. Álaborg kom með tvö stig með sér í riðilinn úr deildarkeppninni og Kolding eitt. GOG og Viborg ekkert.

GOG er þó í efsta sæti riðilsins með sex stig, Kolding fimm og Álaborg fjögur. Viborg er í neðsta sætinu, stigalaust.

Í hinum riðlinum er annað Íslendingalið í efsta sætinu. FCK vann í gær sigur á Bjerringbro-Silkeborg á útivelli, 31-26, og náði þar með tveggja stiga forystu á toppi riðilsins með sjö stig. Bjerringbro-Silkeborg er í öðru sæti með fimm stig.

Þetta var afar mikilvægur sigur fyrir FCK enda Bjerringbro-Silkeborg helsti keppinautur liðsins um efsta sæti riðilsins. Guðlaugur Arnarsson og Arnór Atlason léku ekki með FCK í gær.

Næst í riðlinum koma Team Tvis Holstebro með eitt stig og Skjern með ekkert. Þessi lið mætast í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×