Rétt eins og Barcelona á Spáni þarf Inter á Ítalíu að bíða eitthvað lengur eftir að fagna meistaratitlinum eftir að hafa gert jafntefli í dag.
Inter sótti Chievo heim í dag og varð að gera sér að góðu 2-2 jafntefli. Hernan Crespo var í byrjunarliði Inter í dag í stað Zlatan Ibrahimovic sem tók út leikbann og Argentínumaðurinn kom Inter yfir í snemma leiks.
Michele Marcolini jafnaði fyrir Chievo með þrumuskoti um miðjan fyrri hálfleik en Mario Balotelli kom Inter eftur yfir í þeim síðari. Inter gat þó ekki fagnað titlinum því fyrrum Inter-maðurinn Luciano jafnaði metin fyrir Chievo.
AC Milan mistókst að minnka forskot Inter niður í fimm stig þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Juventus í dag. Clarence Seedorf kom Milan yfir í leiknum en Vincenzo Iaquinta jafnaði fyrir Juventus.
Inter hefur 78 stig á toppnum, Milan hefur 71 stig í öðru sæti og Juventus hefur 67 stig í þriðja sætinu.