Fótbolti

Guardiola hrósar sínum mönnum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Henry og félagar fagna marki í gær.
Henry og félagar fagna marki í gær. Mynd/Getty Images

Josep Guardiola, þjálfari Barcelona, var hæst ánægður með sigur sinna manna á Recreativo í gær. Þrátt fyrir að liðið hafi ekki spilað sömu snilldar knattspyrnuna og það sýndi í 4-0 niðurlægingunni á Bayern Munchen var 2-0 sigurinn öruggur.

"Þetta var virkilega mikilvægur sigur," sagði Guardiola en með sigrinum er forskot Barcelona á Real Madrid aftur komið í níu stig. Real á þó leik til góða, í dag gegn Valladolid.

"Allir lögðu hart að sér. Við færumst skrefi nær markmiðinu okkar með hverju stigi. Okkur skorti kannski smá áræðni en við erum aftur komnir með níu stiga forystu þrátt fyrir að hún verði án efa aftur sex stig eftir leikinn hjá Real," sagði Guardiola og kom léttri pressu á Real um leið.

"Við áttum sigurinn skilinn," sagði þjálfarinn en Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliðinu og lék í klukkustund með Barcelona í gær.

Andres Iniesta skoraði fyrra mark Barcelona, en það síðara var sjálfsmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×