Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir að Vigdís Hauksdóttir hafi óskað eftir starfslokum hjá sambandinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Gylfa en þar segir einnig að Alþýðusamband Íslands hafni því alfarið að Vigdís hafi verið látin gjalda stjórnmálaskoðana sinna.
„Vigdís Hauksdóttir hringdi í mig snemma morguns laugardaginn 7. mars sl. og tjáði mér að sér hefði verið boðið 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjarvíkurkjördæmi suður. Þar með var hún orðin oddviti flokksins í kjördæminu og væntanlegur þingmaður," segir í yfirlýsingu Gylfa.
Þá segir hann að þau hafi rætt málin í mikilli vinsemd og niðurstaðan hefði verið sú að það færi ekki saman að leiða framboðslista stjórnmálaflokks og vera starfsmaður Alþýðusambandsins.
„Það var Vigdís sem óskaði eftir starfslokum við þessar aðstæður og varð það sameiginleg niðurstaða okkar að þau yrðu þegar í stað. Þótti mér miður að missa hana úr starfi hjá lögfræðideild ASÍ enda góður starfskraftur."
Gylfi segir síðan að það hafi ekki verið að því fundið þótt starfsmenn ASÍ hafi sinnt pólitísku starfi. Í því sambandi nefnir hann að Vigdís hafi átt sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins og hafi verið varaþingmaður flokksins og setið í nefndum og ráðum á vegum flokksins.
„Nokkuð sem okkur var fyllilega ljóst þegar Vigdís var ráðin til starfa og við töldum henni til framdráttar. Þegar hins vegar svo er komið að fólk er farið að leiða lista og á þingsæti víst, þá er rétt að leiðir skilji."
Gylfi segir að afloknum kosningum hefði að sjálfsögðu getað komið upp ný staða og þá hefði það verið verkefni þeirra að vinna úr því.
„Ég harma það með hvaða hætti þessi fyrrverandi starfsmaður kýs að ljúka samskiptum sínum við Alþýðusamband Íslands og hafna því með öllu að hún hafi verið látin gjalda stjórnmálaskoðana sinna."