Körfubolti

Jóhannes hættur með KR

Mynd/Daníel

Jóhannes Árnason tilkynnti að hann væri hættur að þjálfa kvennalið KR eftir að lið hans tapaði 69-64 fyrir Haukum í oddaleik í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna í kvöld.

"Við erum búin að vinna hörðum höndum í því að koma okkur á þennan stað. Mér líður þannig að við hefðum átt að vinna en það er ekkert við því að gera. Ég óska bara Haukum til hamingju með þetta," sagði Jóhannes í samtali við Vísi.

"Markmiðið fyrir tímabilið var að leika til úrslita í öllum keppnum og við gerðum það. Við urðum Reykjavíkurmeistarar, í öðru sæti í Poweradebikarnum, unnum bikarkeppnina og förum í fimmta leik í lokaúrslitum. Fyrirfram hefði ekki verið hægt að byrja um meira þar sem við vorum ekki með erlendan leikmann og vorum í smá basli framan af tímabili," sagði Jóhannes og sagðist stoltur af liði sínu.

"Við erum með frábæra leikmenn í okkar liði og þessar stelpur hafa hæfileika sem þær hafa ekki enn fattað sjálfar. Þeirra stjarna á eftir að skína skært í framtíðinni. Þetta eru ungar stelpur sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða," sagði Jóhannes, sem ætlar að láta staðar numið í þjálfun liðsins.

"Ég var með þriggja ára markmið um að gera góða hluti með þetta lið og nú er kominn tími til að fara að vinna aftur með litlu krökkunum og hleypa einhverjum betri þjálfara en mér að til að klára dæmið. Það var löngu ákveðið að ég tæki þessi þrjú ár að mér, en nú er ég að fara að opna lögmannsstofu og því er kominn tími á nýjan mann. Það verður væntanlega barist um að fá að þjálfa þessar stelpur," sagði Jóhannes.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×