Fótbolti

Joachim Löw verður áfram þjálfari þýska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joachim Löw.
Joachim Löw. Mynd/Getty Images
Joachim Löw hefur ákveðið að halda áfram sem þjálfari þýska landsliðsins í knattspyrnu og hefur gert nýjan tveggja ára samning. Aðstoðarmenn Löw, Hans -Dieter Flick og Andreas Köpke sem og liðstjórinn Oliver Bierhoff munu einnig halda áfram.

Þýska knattspyrnusambandið hefur boðað til blaðamannafundar í dag þar sem tilkynnt verður um endurráðningu allra þessa manna. Joachim Löw bauð þeim þremur heim til sín á dögunum þar sem þeir fóru yfir framtíðina og fyrirhugaðar samningarviðræður við þýska knattspyrnusambandið.

Þýska landsliðið hefur náð frábærum árangri undir stjórn Joachim Löw sem tók við liðinu af Jörgen Klinsmann eftir HM 2006. Þýska liðið varð í 2.sæti á EM 2008 og svo í 3. sæti á HM í Suður-Afríku í sumar. Liðið hefur unnið 38 af 55 landsleikjum undir hans stjórn og aðeins tapað 9 þeirra.

Joachim Löw mun stjórna þýska liðinu fram yfir EM 2012 sem fram fer í Úkraínu og Póllandi. Fyrsti leikurinn eftir HM verður vináttuleikur á móti Danmörku í Kaupamannahöfn 11. ágúst næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×