Töluverð röskun verður á flugi Icelandair í dag vegna lokunar Keflavíkurflugvallar, en flug var með eðlilegum hætti í morgun. Félagið hefur fellt niður flug til Kaupmannahafnar, London, New York, Boston og Seattle síðdegis.
Jafnframt hefur verið fellt niður flug frá Kaupmannahöfn, London, Manchester/Glasgow, Osló, Stokkhólmi, Helsinki, Frankfurt, París, Amsterdam síðdegis í dag, og flug frá New York, Boston og Seattle í kvöld.
Sett hafa verið upp ný flug, frá Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Helsinki, London og Manchester/Glasgow í nótt og er gert ráð fyrir komu þeirra til Keflavíkurflugvallar þegar hann opnar um klukkan sex í fyrramálið.
„Í dag erum við ekki aðeins að glíma við lokun Keflavíkurflugvallar, heldur einnig takmarkaða umferð um flugvelli á Bretlandseyjum og víðar. Ekki er unnt að fljúga í nótt frá Amsterdam, París og Frankfurt vegna næturlokana á flugvöllunum, en reynum að halda flugstarfseminni gangandi eins og unnt er við þessar erfiðu aðstæður", segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í tilkynningu.
Farþegar hvattir til þess að fylgjast með fréttum í fjölmiðlum, og upplýsingum um komu- og brottfarartíma á www.icelandair.is og vefmiðlum.

