Handbolti

Pálmar: Ég er æsti og spennti gaurinn

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Pálmar Pétursson.
Pálmar Pétursson. Fréttablaðið/Anton
Pálmari Péturssyni var sagt að fá sér frí í vinnunni og pakka ofan í tösku á fimmtudagskvöldið, hann væri á leiðinni til Brasilíu að spila sína fyrstu A-landsleiki. "Ég á þrjá leiki með B-liðinu en þetta verða fyrsti alvöru leikirnir," sagði Pálmar við Fréttablaðið í gærkvöld.

Hann mætti á fyrstu æfinguna í gær. "Ég kom þarna inn sem æsti og spennti gaurinn. Menn eru eitthvað að kvíða fyrir þessu 30 tíma ferðalagi að hvað þetta verður. Ég er sá eini sem hlakkar til," sagði Pálmar. "Ég er mjög spenntur."

Markmaðurinn kom inn í liðið á kostnað Arons Rafn Eðvarðssonar sem er meiddur. "Ég túlka þetta á minn hátt og segi að ég sé fjórði markmaður inn," sagði Pálmar kíminn.

"Það er ekkert verra að þetta sé í Brasilíu. Það verður gaman að koma þangað og sjá handboltaumhverfið þar. Þetta verður örugglega fín, ég veit varla hvar þetta er í landinu einu sinni. Það eina sem ég veit að ég á að mæta niður í höfuðstöðvar HSÍ klukkan korter í fimm á sunnudagsmorgun með punghlíf og skó og þá er ég bara klár," sagði Pálmar sem vonast til að fá að spila úti.

"Það munu allir leggja mikinn metnað í þessa leiki, menn verða að nota tækifærin til að sanna sig. Brasilíumenn eru með lúmskt gott lið. Þetta verður gaman," sagði Húsvíkingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×