Lífið

Til Japans í fyrsta sinn í 27 ár

mezzoforte Hljómsveitin er á leiðinni í tónleikaferð til Japans í fyrsta sinn í 27 ár.
mezzoforte Hljómsveitin er á leiðinni í tónleikaferð til Japans í fyrsta sinn í 27 ár.

Hljómsveitin Mezzoforte er síður en svo hætt störfum. Fram undan er tónleikaferðalag til Japans.

„Hljómsveitin hefur ekki farið þarna síðan 1984 þannig að það er ánægjuefni að fá þetta tækifæri aftur,“ segir Jóhann Ásmundsson, bassaleikari Mezzoforte.

Hljómsveitin fer í tónleikaferð til Japans í janúar í fyrsta sinn í 27 ár og spilar á tveimur stöðum, tvisvar sinnum á kvöldi, alls sex sinnum. Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við bandaríska tónlistartímaritið Billboard undir yfirskriftinni Billboard Live. „Þetta er í ætt við Blue Note-klúbbinn sem er frægur um allan heim og er í New York og Mílanó,“ segir Jóhann og hlakkar til tónleikanna.

Mezzoforte fór í tónleikaferð um Evrópu í nóvember og spilaði á Spáni, í Noregi, Þýskalandi og Tékklandi. Hún tróð einnig upp í rússnesku borginni Vladivostok, sem er rétt við landamærin að Kína.

„Þetta var ótrúlega langt ferðalag innan Rússlands, nánast eins og að fara frá Íslandi til Japans,“ útskýrir Jóhann. „Þetta var nærri níu tíma flug bara frá Moskvu. Þetta var dágott ferðalag.“

Nýjasta plata Mezzoforte, Volcanic, fór í dreifingu um Evrópu í byrjun nóvember. Hún fer líklega í dreifingu fljótlega á næsta ári í Bandaríkjunum. Hér heima er enginn dreifingaraðili til staðar en áhugasamir geta nálgast hana á heimasíðu sveitarinnar.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×