Handbolti

Stelpurnar enda á því að mæta heimsmeisturum Rússa

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari.
Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari. Fréttablaðið/Anton
Ísland er í riðli með Svartfjallalandi, Króatíu og heimsmeistaraliði Rússlands í lokakeppni EM í handbolta sem fer fram í Noregi og Danmörku í desember. Leikaniðurröðun mótsins hefur verið gefin út.

Ísland mætir Króötum í fyrsta leiknum þann 7. desember, þá Makedóníu 9. desember og loks Rússum í lokaleik riðilsins 11. desember.

Ísland og Svartfjallaland eru einu liðin á EM sem ekki hafa áður komist í lokakeppnina. Króatar hafa aldrei komist á verðlaunapall á stórmóti og urðu í sjötta sæti á síðasta EM.

Rússland hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari og fengið eitt silfur og tvenn bronsverðlaun á Evrópumeistaramótum. Þá vann liðið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Þrjú lið fara upp í milliriðil þar sem Ísland myndi mæta þremur þjóðum úr A-riðli. Þar leika Spánn, Danmörk, Serbía og Rúmenía.

Milliriðillinn er leikinn 13., 14. og 16. desember og undanúrslitaleikirnir ásamt leik um 5. sætið þann 18. desember.

Leikurinn um bronsið og gullið fara svo fram 19. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×