Sport

Vitali Klitschko hættir á árinu - útilokar ekki að mæta Haye

Ómar Þorgeirsson skrifar
Bræðurnir Wladimir og Vitali Klitschko.
Bræðurnir Wladimir og Vitali Klitschko. Nordic photos/AFP

WBC-þungavigtarmeistarinn Vitali Klitschko hefur staðfest að hann muni líklega leggja hanskana á hilluna á þessu ári en hinn 38 ára gamli Úkraínumaður er í viðræðum við Rússann Nikolai Valuev um bardaga í maí.

Klitschko hefur alltaf sagt að hann muni ekki mæta bróður sínum Wladimir Klitschko í hringnum en það hefur hins vegar lengi verið draumur þeirra bræðra að halda öllum þungavigtarmeistarabeltunum innan fjölskyldunnar á sama tíma.

Þar sem Vitali er handhafi WBC-beltisins og Wladimir IBF -og WBO-beltanna þá vantar aðeins WBA-beltið í safnið og það er í höndum Bretans David Haye sem stendur.

Haye mætir Bandaríkjamanninum John Ruiz í byrjun apríl í sinni fyrstu meistaravörn og Vitali Klitschko hefur gefið í skyn að hann muni reyna að mæta sigurvegaranum úr þeim bardaga áður en hann hættir.

Lengi hefur staðið til að Haye myndi mæta öðrum hvorum Klitschko-bróðurnum en alltaf hefur eitthvað komið upp á til þess að koma í veg fyrir að af bardaganum yrði en það er greinilega enn von.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×