Það er risaslagur í ítalska boltanum í kvöld þegar grannarnir í AC Milan og Inter eigast við. AC Milan getur með sigri saxað forskot Inter í þrjú stig og þar að auki á liðið leik til góða.
Brasilíski sóknarmaðurinn Ronaldo hefur leikið með báðum þessum liðum en í dag er hann hjá Corinthians í heimalandi sínu. Ronaldo segist styðja AC Milan í leiknum í kvöld.
„Ég átti góð ár hjá Inter og þykir vænt um félagið. Það er hinsvegar styttra síðan ég var hjá Milan og fékk að kynnast því ótrúlega andrúmslofti sem ríkir hjá félaginu," segir Ronaldo.
Landi hans, Ronaldinho, er farinn að finna sig á ný og þar munar um minna fyrir AC Milan. „Ég er mjög ánægður fyrir hönd Ronaldinho. Það er frábært að sjá að hann hefur öðlast leikgleðina á ný. Hann hefur ótrúlega hæfileika," segir Ronaldo.