„Í rauninni hefði þetta alveg eins getað verið planað. Samræðurnar pössuðu einhvern veginn alveg við efnivið verksins,“ segir leikarinn Stefán Hallur Stefánsson, en undarleg uppákoma átti sér stað á miðnætursýningu Mojito á laugardaginn.
„Þegar leikritið var hálfnað fann einn leikhúsgesturinn hjá sér þörf til að trufla sýninguna og tilkynna öllum að hann ætti konu frá Marokkó,“ segir Stefán Hallur, en í verkinu er meðal annars talað um austurlenskar konur og að það þurfi að bera virðingu fyrir menningu annarra landa.
Maðurinn lét í sér heyra nokkrum sinnum meðan á sýningunni stóð og á endanum þurfti Stefán Hallur sjálfur að grípa inn í.
„Við þurftum að biðja hann um að hafa sig hægan á meðan við kláruðum sýninguna.“
Hann segir þetta hafa verið ansi áhugavert.
„Samræðurnar okkar á milli voru það skemmtilegar að margir spurðu mig eftir á hvort þetta hefði verið hluti sýningarinnar. Við vildum í rauninni bara skrifa niður þessar samræður og bæta þeim á einhvern hátt inn í efnið,“ segir Stefán Hallur og hlær.
Þeir sem koma að sjá Mojito í Tjarnarbíói fá einn mojito við innganginn.
Heldur Stefán Hallur að maðurinn hafi fengið sér fleiri en einn mojito?
„Eigum við ekki að segja það?“ segir Stefán Hallur í léttum dúr.
- ka