Sigurbergur Sveinsson, leikmaður Hauka, á von á hörkuspennandi leikjum í úrslitarimmu liðsins gegn Val um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.
Fyrsti leikurinn í einvíginu fer fram á heimavelli Hauka í kvöld kl. 20.00 en það lið sem vinnur fyrst þrjá leiki verður Íslandsmeistari.
„Við stefnum að sjálfsögðu á sigur. Við erum deildarmeistarar og fengum því heimavallarréttinn. Við ætlum ekki að tapa honum niður strax í fyrsta leik," sagði Sigurbergur í samtali við Vísi.
„En þetta verður verðugt verkefni enda líta Valsarar mjög vel út þessa dagana."
Haukar unnu 2-0 sigur á HK í undanúrslitum á meðan að Valur þurfti framlengdan oddaleik í sinni undanúrslitarimmu gegn Akureyri.
„Það var vissulega aukaálag hjá Val að þurfa að spila oddaleikinn en það eru allir þreyttir á þessum tímapunkti og því held ég að það muni ekki skipta miklu máli. Þetta er bara spurning um hvort liðið hungrar meira í titilinn."
Sigurbergur gekk í gær frá tveggja ára samningi við þýska úrvalsdeildarfélagið Dormagen og fer því frá Haukum í sumar.
„Þetta ferli tók ekki langan tíma og ég er mjög ánægður með að vera búinn að ganga frá þessu. Nú get ég leyft mér að einbeita mér algerlega að úrslitakeppninni."