Sonur leikarans Michael Douglas, Cameron, var dæmdur í fimm ára fangelsi í New York í gær.
Cameron, sem er 31 árs, játaði að hafa selt metamfetamín og haft kókaín og heróín í sínum fórum. Hann var handtekinn í fyrra og lenti síðan í frekari vandræðum í aðdraganda réttarhaldanna. Þá reyndi kærasta hans að smygla eiturlyfjum til hans í rafmagnstannbursta.
Refsirammi brota Cameron Douglas er tíu ár. Fyrir dóminn höfðu Michael Douglas, kona hans Catherine Zeta-Jones og faðir hans Kirk Douglas skrifað dómaranum bréf þar sem þau báðu hann um að fara mildum höndum um Cameron. Senda hann frekar í meðferð en fangelsi. Dómarinn var ekki ánægður með þessar bréfasendingar og sakaði þau um að reyna að breyta Cameron í fórnarlamb á meðan hann er í raun glæpamaður.
Auk fangelsisvistarinnar þarf hann að greiða 25 þúsund dollara og klára 450 stunda samfélagsþjónustu. Þá verður hann á skilorði í fimm ár eftir að fangelsisvistinni lýkur. Cameron las upp yfirlýsingu þegar dómarinn hafði lokið sér af. Þar lofaði hann að hætta á heróíni og bað fjölskyldu sína afsökunar.
Gríðarlegur fjölmiðlasirkus var fyrir utan dómshúsið í Manhattan eins og sést á myndunum hér fyrir neðan.
