Fótbolti

Versta tap Spánverja í 47 ár - heimsmeistarar hafa aldrei tapað stærra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Portúgalir fagna hér einu marka sinna í gær.
Portúgalir fagna hér einu marka sinna í gær. Mynd/AP
Heims- og Evrópumeistarar Spánverja steinlágu 4-0 á móti Portúgölum í vináttulandsleik í gær og það þarf að fara allt til ársins 1963 til þess að finna stærra tap hjá spænska landsliðinu. Spánn tapaði 6-2 fyrir Skotlandi fyrir 47 árum.

1-3 tap íslenska landsliðsins fyrir Portúgal á Laugardalsvellinum á dögunum lítur kannski betur út núna en spænsku fjölmiðlarnir voru allt annað en hrifnir í morgun.

"Skelfilegur kinnhestur," var fyrirsögnin í Marca, "Virðing Spánar fór fyrir lítið" stóð í EL Pais og "Meistararnir aðhlátursefni" var fyrirsögnin í La Razon.

Spánn hefur unnið alla þrjá leiki sína í undankeppni EM og er á toppi síns riðils en liðð hefur á sama tíma ekki náð að vinna í þremur vináttuleikjum við Mexíkó (1-1 jafntefli), Argentínu (1-4 tap) og Portúgal.

Ríkjandi heimsmeistarar hafa aldrei tapað stærra en í gær. Ítalir töpuðu 5ö1 á móti Austurríki 1947 og 4-0 á móti Englandi 1948 og Brasilíumenn töpuðu 5-1 á móti Belgum árið 1963.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum í gær með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×