„Ef okkur tekst að koma fram með einhver úrræði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er ég sannfærð um að það muni draga úr alvarlegum vanskilum,“ segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.
Nýjustu upplýsingar Creditinfo benda til að allt upp undir tvö þúsund fyrirtæki stefni í alvarleg vanskil á næstu mánuðum. Rakel bendir á að þeim geti fjölgað verði ekkert að gert. Verði spýtt í lófana geti tölurnar snúist hratt við, að hennar sögn.
Hún bendir á að fyrirtæki af þessari stærðargráðu séu um 95 prósent allra fyrirtækja landsins, hjá þeim starfi allt frá einum og upp í fimmtíu manns. „Við verðum að ná til fjöldans, að þeim verðum við að huga núna,“ segir Rakel.
Upplýsingaveitan Datamarket birti í gær upplýsingar um fjölda gjaldþrota síðastliðin fimm ár fram í september á þessu ári. Upplýsingarnar eru jafnt frá Hagstofu Íslands og Ríkisskattstjóra. Tölurnar benda til að gjaldþrot fyrirtækja hafi náð hámarki í október í fyrra þegar 108 fyrirtæki urðu gjaldþrota.
Rakel bendir á að fjöldi gjaldþrota gefi afar takmarkaða mynd af stöðunni.
„Það eru fleiri fyrirtæki sem fara í greiðsluþrot með árangurslausu fjárnámi en í gjaldþrot,“ segir hún. - jab