Gennaro Gattuso, miðjumaður AC Milan, segist hafa verið á barmi þess að yfirgefa herbúðir ítalska liðsins vegna þess að samband hans við Leonardo hafi ekki verið gott.
Leonardo stýrði AC Milan á síðasta tímabili en Massimiliano Allegri tók við stjórnartaumunum og lagði áherslu á að halda Gattuso.
„Það tók mig langan tíma að jafna mig á erfiðum meiðslum. En nú þegar hnéð er komið í gott lag get ég æft reglulega," segir Gattuso.
„Síðasta tímabil var mér erfitt og bekkjarsetan meiri en ég á að venjast. Samband mitt við Leonardo var ekki gott. Ég virti alltaf ákvarðanir hans en við náðum ekki saman. Ég er mun betur stemmdur núna en á síðasta tímabili þegar ég glataði ástríðunni fyrir því að spila."
„Ég var búinn að ákveða að fara til Grikklands og ganga til liðs við Olympiakos. Allegri kom í veg fyrir söluna. Það var búið að ganga frá nánast öllu en hann sannfærði mig um að hann þyrfti á mér að halda."