Snemma árs 2007, meðan George W. Bush var enn forseti Bandaríkjanna, fóru bandarísk stjórnvöld þess á leit við Íslendinga að taka við föngum frá Guantanamo á Kúbu. Þetta kemur fram í leyniskjölum bandarísku utanríkisþjónustunnar, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.
Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ræddi þetta við Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi utanríkisráðherra, og Jörund Valtýsson, ráðgjafa í utanríkisráðuneytinu.
Valgerður er sögð hafa fagnað því, að fangabúðunum á Kúbu verði lokað þegar fram líða stundir. Hins vegar þurfi íslensk stjórnvöld að hugsa málið áður en svar verði gefið.
Endanlegt afsvar berst svo Bandaríkjamönnum þann 29. mars, þar sem Íslendingar segjast hvorki hafa sérfræðikunnáttu né aðstöðu til að taka við föngum frá Guantanmo.
Haft er eftir Nikulas Hannigan, ráðgjafa í utanríkisráðuneytinu, að íslensk lög heimili aðeins móttöku flóttamanna í skilningi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.