Körfubolti

Haukar tryggðu sér oddaleik í úrslitakeppni 1. deildar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Semaj Inge.
Semaj Inge. Mynd/Vilhelm
Haukar unnu 89-73 sigur á Þór Þorlákshöfn í Þorlákshöfn í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta í kvöld og tryggðu sér þar með oddaleik á heimavelli sínum á Ásvöllum. Þór vann fyrsta leikinn með einu stigi í Hafnarfirði.

Það var ljóst frá byrjun að Haukarnir ætluðu ekki að láta sópa sér í sumarfrí, þeir voru komnir 26-18 yfir eftir fyrsta leikhlutann, voru síðan 48-44 yfir í hálfleik og höfðu átta stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 67-59.

Semaj Inge var atkvæðamestur í Haukaliðinu í kvöld með 31 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar en Óskar Magnússon skoraði 18 stig og Helgi Björn Einarsson var með 11 stig.

Richard Field var með 29 stig og 16 fráköst fyrir Þór og Grétar Ingi Erlendsson skoraði 13 stig.

Oddaleikur liðanna fer fram á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið en á morgun mætast Skallagrímur og Valur í öðrum leik sínum í Borgarnesi en Valur vann fyrsta leikinn 95-89.

Þau lið sem vinna fyrst tvo leiki tryggja sér sæti í lokaúrslitum þar sem er keppt um hvaða lið fylgir KFÍ upp í Iceland Express deild karla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×