Lífið

Vilja Airwaves-hátíð í Hörpu

Grímur vonast til að halda Airwaves-tónleika í Hörpu á næsta ári.
Grímur vonast til að halda Airwaves-tónleika í Hörpu á næsta ári.

„Við erum að skoða þetta á fullu. Ef allt heppnast viljum við fara þarna inn," segir Grímur Atlason, skipuleggjandi tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Svo gæti farið að hátíðin verði að hluta til haldin í nýja tónlistarhúsinu Hörpu á næsta ári. Þar með myndi Harpa bætast í hóp tónleikastaða á borð við Nasa, Listasafn Reykjavíkur, Iðnó og Sódómu Reykjavík sem hafa hingað til hýst Airwaves.

Að sögn Gríms verður ákveðið á nýju ári hvort Harpan verði næsti viðkomustaður hátíðarinnar.

„Við fórum þangað og skoðuðum. Salirnir komu dálítið á óvart. Þeir eru dálítið flottir, sérstaklega hliðarsalirnir. Þeir eru mjög stórir og góðir og gætu gert lukku," segir hann.

Salirnir taka annars vegar 1.500 manns standandi og hins vegar rúmlega 1.000 manns og því um stór rými að ræða sem gætu nýst Grími og aðstoðarfólki hans vel.

„Við verðum kannski ekki þarna klukkan þrjú um nóttina en með þessu væri hægt að fjölga aðeins áhorfendum, sem er mikilvægt fyrir okkur rekstrarlega séð."

Forsvarsmenn Hörpunnar vilja að sem flestar tónlistarstefnur fái að njóta sín í húsinu, þar á meðal popp- og rokktónlist, og yrði koma Airwaves-hátíðarinnar þangað því til að undirstrika þann vilja.

Spurður hvers konar flytjendur myndu fá að spreyta sig í Hörpunni segir Grímur ekkert ákveðið um það. Sænska söngkonan Robyn, sem söng í Listasafni Reykjavíkur í haust, hefði þó vel getað sómt sér þar að hans mati.

„Það hefði verið gaman að hafa hana í aðeins stærri húsi." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×