Ísland vann Króatíu 3-0 í undankeppni HM í kvöld. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði tvö mörk og Katrín Jónsdóttir eitt, í sínum 100. landsleik.
Íslenska landsliðið hefur nú leikið níu leiki á Laugardalsvelli undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, unnið þá alla og markatalan er 43-0. Liðið hefur ekki fengið á sig mark í þessum níu leikjum.
Ísland mætir Frakklandi þann 21. ágúst og með 3-0 sigri þar er liðið svo gott sem komið á HM. Það verður þó erfitt verkefni.
Íslenska liðið sýndi mikla yfirburði í gær. Í fyrri hálfleik skaut það alls tólf sinnum á markið, helmingur þeirra fór á rammann og tvö þeirra enduðu í netinu.
Hólmfríður skallaði í slá eftir horn áður en hún kom íslenska liðinu yfir. Hún fékk boltann við vítateigshornið, lék á eina þrjá varnarmenn áður en hún skoraði gott mark. Ísinn brotinn og króatíska liðið ekki að spila vel.
Hólmfríður skoraði aftur undir lok hálfleiksins, skömmu áður hafði Dóra María skotið í slá. Hólmfríður fékk langa sendingu fram og virtist snerta varnarmann og var allt í einu ein gegn Ivönu markmanni. Hún þrumaði boltanum í netið og skoraði örugglega. 2-0 í hálfleik en þjálfarar Króatíu sýndu mikla vanvirðingu eftir markið.
Þjálfarinn grýtti vatnsflösku í jörðina og öskraði á dómarann og íslenskan fjórða dómara líka. Markmannsþjálfarinn gekk lengst, hún klappaði kaldhæðnislega fyrir dómaranum það sem eftir lifði hálfleiks og beið svo eftir henni í höfuðstöðum KSÍ í hálfleik þar sem hún hélt klappinu áfram.
Sara Björk byrjaði seinni hálfleikinn á því að skalla í slá og hún skaut í slánna seinna í hálfleiknum. Yfirburðir Íslands héldu áfram út leikinn.
Það var frábært að sjá Katrínu Jónsdóttur skora í sínum 100. landsleik. Hún skallaði hornspyrnu í netið og fagnaði vel og innilega. Magnaður árangur hennar kórónaður með fínu marki.
Leikurinn fjaraði út og 3-0 sigur niðurstaðan. Íslenska liðið hefði getað skorað mun meira en líkt og gegn Norður-Írum hefði það þurft að vanda sig betur við markið.
Ólíklegt er að markatalan muni skipta máli en eftir yfir 40 skot á heimavelli gegn Norður-Írum og Króötum og aðeins fimm mörk er ljóst að liðið hefði getað bætt markatöluna umtalsvert hér.
Vinni Ísland lið Frakka 2-0 skiptir markatalan máli en þar hafa Frakkar mikla yfirburði, þeir hafa skoraði 36 mörk og ekki fengið neitt á sig í keppninni, en Ísland er með 26 mörk í plús.
Ísland - Króatía 3-0
1-0 Hólmfríður Magnúsdóttir (19.)
2-0 Hólmfríður Magnúsdóttir (42.)
3-0 Katrín Jónsdóttir (75.)
Áhorfendur: 1875.
Skot (á mark): 21-3 (9-0)
Varin skot: Þóra 0 - Ivana 1
Horn: 7-1
Aukaspyrnur fengnar: 11-11
Rangstöður: 6-0
