Enski boltinn

Leikirnir sem Wayne Rooney missir af á næstunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney á hækjum.
Wayne Rooney á hækjum. Mynd/AP

Manchester United hefur ekki enn gefið út formlega tilkynningu um niðurstöður sínar á rannsóknum á ökklameiðslum Wayne Rooney en stjórinn Alex Ferguson ætlar ekki að skýra frá stöðu mála fyrr en á blaðamannafundi á morgun.

Enskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að framherjinn snjalli verði frá í allt að fjórar vikur.

Það þýðir að Rooney missir af mörgum lykilleikjum í baráttunni um enska meistaratitilinn og báðum undanúrslitaleikjunum í Meistaradeildinni takist United að slá út Bayern Munchen í næstu viku.

Rooney mun í fyrsta lagi missa af stórleiknum á móti Chelsea um næstu helgi og seinni leiknum á móti Bayern Munchen í næstu viku en báðir þessir leikir fara fram á Old Trafford.

Komist United áfram í Meistaradeildinni spila þeir báða undanúrslitaleikina gegn annaðhvort Lyon eða Bordeaux í apríl og þá á liðið einnig deildarleiki á móti Blackburn Rovers (úti 11. apríl), Manchester City (úti 17. apríl) og Tottenham Hotspur (heima 24. apríl) áður en apríl-mánuður er allur. United á þá eftir aðeins tvo deildarleiki.

Dimitar Berbatov mun líklega taka stöðu Wayne Rooney alveg eins og hann gerði á móti Bolton um síðustu helgi. Búlgarinn skoraði þá tvö mörk í 4-0 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×