Enski boltinn

Willum Þór lagði upp þegar Birming­ham tapaði ó­vænt stigum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Willum Þór fagnar ásamt stuðningsfólki Birmingham.
Willum Þór fagnar ásamt stuðningsfólki Birmingham. Birmingham City

Willum Þór Willumsson heldur áfram að gera það gott með Birmingham City í ensku C-deildinni. Hann lagði upp mark liðsins í 1-1 jafntefli á heimavelli gegn Northampton Town en gestirnir jöfnuðu í blálok leiksins.

Willum Þór var á sínum stað í byrjunarliðinu á meðan Alfons Sampsted hóf leik á bekknum en kom inn þegar rúmlega stundarfjórðungur lifði leiks.

Eftir markalausan fyrri hálfleik átti Willum Þór fyrirgjöf á kollinn á Jay Stansfield, dýrasta leikmanni liðsins, sem stýrði boltanum í netið. Staðan orðin 1-0 Birmingham í vil og virtust það ætla að vera lokatölur leiksins.

Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jöfnuðu gestirnir hins vegar, lokatölur 1-1. Þetta var annað jafntefli Birmingham í röð en liðið hefur nú unnið aðeins tvo af síðustu fimm leikjum sínum.

Birmingham nú í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, tveimur minna en topplið Wycombe sem hefur leikið leik meira. Jón Daði Böðvarsson og félagar í Hollywood-liði Wrexham eru svo í 3. sæti með 28 stig.

Willum Þór hefur nú skorað fjögur mörk og lagt upp fjögur til viðbótart í 13 deildarleikjum. Alls hefur hann skorað fimm og lagt upp sjö í 16 leikjum í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×