Lífið

Hjaltalín fær fimm stjörnur í Noregi

Stórsveit Sveitinni Hjaltalín er spáð frægð og frama í Noregi.
Stórsveit Sveitinni Hjaltalín er spáð frægð og frama í Noregi.

Fjallað er um plötu sveitarinnar Hjaltalín, Terminal, á netmiðli Bergens Avisen en platan er nýkomin út í Skandinavíu. Gagnrýnandi ba.no gefur plötunni 5 af 6 í svokölluðu teningakasti og kallar Hjaltalín stórsveit innan indie-tónlistarstefnunnar.

„Þessi sjö manna sveit hendir saman fallegum strengjahljóðfærum, smá fagotthljómi og toppar svo herlegheitin með fallegum röddum Högna Egilssonar og Sigríðar Thorlacius,“ segir meðal annars í dómnum en gagnrýnandinn, Orjan Nilson, virðist hrifinn af Hjaltalín. Meðal annars telur hann Hjaltalín hafa tekist vel til að blanda saman ólíkum tónlistarstefnum og að það minni hann stundum á gamaldags sveitatónlist. Hann mælir sérstaklega með lögunum Feels like Sugar, 7 Years og Stay by You. Að lokum spáir Nilson Hjaltalín frægð í hinum stóra heimi og að hún muni jafnvel ná að verða eins fræg og Sigur Rós.

Eins og fyrr segir er platan að koma út í Skandinavíu um þessar mundir og stefnir hljómsveitin á að kynna hana í útgáfulöndunum með haustinu. Terminal kom út hér á landi í fyrra og var meðal annars kosin besta plata síðasta árs af Fréttablaðinu. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×