Handbolti

Umfjöllun: Valur deildarbikarmeistari þrátt fyrir stórleik Írisar

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Karen Knútsdóttir í leiknum í kvöld.
Karen Knútsdóttir í leiknum í kvöld. Mynd/Valli
Valur er deildarbikarmeistari í kvenna í handbolta eftir 22-23 sigur í úrslitum gegn Fram í Strandgötunni í kvöld. Fram lék betur í fyrri hálfleik og lokaði Íris Björk Símonardóttir hreinlega marki Fram í fyrri hálfleik og varði 18 skot. Valur lék hins vegar betur í síðari hálfleik og hafði að lokum eins marks sigur.

Valskonur mættu ákveðnar til leiks í fyrrihálfleik og höfðu frumkvæðið framan af. Þá kom hins vegar að þætti Írisi Bjarkar Símonardóttur í marki Fram. Hún hreinlega lokaði markinu og varði alls 18 skot í fyrri hálfleik. Ótrúleg markvarsla hjá landsliðsmarkverðinum sem greinilega kann vel við sig á fjölunum í Strandgötunni. Með góðri vörn náði Fram þriggja marka forystu í hálfleik, 14-11.

Valskonur mættu dýrvitlausar til leiks í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu fimm mörkin í síðari hálfleik og náðu forystu í leiknum. Valur náði undirtökunum í leiknum og áttu Fram í erfiðleikum með sterkan varnarleik Valskvenna. Íris Björk fann fjölina á nýjan leik í marki Fram sem náðu um leið að jafna leikinn þegar skammt var eftir.

Lokamínútur leiksins voru æsispennandi og var mikil stemmning á pöllunum. Sunneva Einarsdóttir varði vel lokaskot Fram í leiknum og Valur fagnaði vel deildarbikarmeistaratitlinum.

Íris Björk átti sannkallaðan stórleik í marki Fram og varði alls 24 skot, þar af 18 í fyrri hálfleik. Hún hélt sínu liði á floti á tímabili. Íris Ásta Pétursdóttir átti góðan leik hjá Val og skoraði sex mörk. Hrafnhildur Skúladóttir kom næst með fimm mörk. Hjá Fram átti Guðrún Þór Hálfdánsdóttir góðan leik og skoraði sex mörk.

Mörk Fram: Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 6, Karen Knútsdóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 4, Ásta Birna Gunnarsdóttir 3, Birna Berg Haraldsdóttir 2, María Karlsdóttir 2, Marthe Sördal 1.

Varin skot: Íris Björk Símonardóttir 24 skot.

Mörk Vals: Íris Ásta Pétursdóttir 6, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir 5, Karólína Gunnarsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Kristín Guðmundsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Anett Köbli 1, Dagný Skúladóttir 1.

Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 9, Guðný Jenný Ásmundsóttir 6.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×