Handbolti

Hrafnhildur: Viljum fá alla titlana á Hlíðarenda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Mynd/Valli
Valur er getur í dag orðið bikarmeistari kvenna í handbolta og þar með verið handhafi allra titlanna sem í boði eru samtímis.

Valur vann deildarmeistaratitilinn síðastliðinn vetur og svo Íslandsmeistaratitilinn eftir harða baráttu við Fram í úrslitaeinvíginu. Liðið fagnaði sigri aftur gegn Fram, 25-23, í Meistarakeppni HSÍ í haust og liðin áttust enn og aftur við í úrslitum deildarbikarkeppninni á milli jóla og nýárs. Þá hafði Valur betur, 23-22.

En Fram varð bikarmeistari í fyrra og mun sjálfsagt berjast með kjafti og klóm til að koma í veg fyrir að Valur hrifsi þann titil einnig.

„Þetta eru klárlega tvö bestu liðin og þau lið sem eiga að vera í þessum leik. Sem betur fer er það þannig. Það hefði verið sorglegt hefðu þessi lið dregist saman til dæmis í undanúrslitunum," sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrirliði Vals, í samtali við Vísi. Leikurinn í dag hefst klukkan 13.30.

„Það kitlar auðvitað mjög mikið að ná öllum titlunum og það á afmælisárinu," bætti hún við en Valur fagnar 100 ára afmæli í ár. „En það mun ekki trufla okkur. Við erum algerlega einbeitt að leiknum og ætlum að njóta þess að spila hann og gera okkar besta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×