Leik ÍBV og Fram í N1 deild kvenna í handbolta sem átti að fara fram í dag hefur verið frestað þangað til á morgun. Nýkrýndir bikarmeistarar Framara komust ekki til Vestmannaeyjar vegna ófærðar og því varð að fresta leiknum um sólarhring.
Leikurinn hefur verið settur á klukkan 13.00 á morgun. Fjórir aðrir leikir fara samt fram í dag. Fylkir og Haukar mætast í Fylkishöllinni klukkan 15.00 og klukkan 16.00 fara síðan fram þrír leikir: FH - Valur í Kaplakrika, ÍR - Grótta í Austurbergi og Stjarnan - HK í Mýrinni.
