Handbolti

Guðjón: Þjóðverjar brotna ef við setjum pressu á þá

Henry Birgir Gunnarsson í Halle Westfalen skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson segir að íslenska liðið mæti til leiks í dag gegn Þjóðverjum með sjálfstraustið í botni og ætli sér sigur.

"Leikurinn leggst vel í mig en þetta er enn einn úrslitaleikurinn í riðlinum," sagði Guðjón sem er ekki að hugsa um neina hefnd frá því á HM.

"Þetta er bara nýtt mót og við komumst ekki í undanúrslit á HM þó við vinnum á morgun. Ég vil aftur á móti komast á EM og þess vegna vil ég vinna leikinn. Sigur hér getur komið okkur langleiðin á EM," sagði Guðjón en hann segir að skipta máli fyrir Þjóðverja að fá Holger Glandorf í liðið.

"Hann er líka mennskur og það er ekkert víst að hann skori tíu mörk. Við þurfum að spila okkar varnarleik gegn honum. Við höfum unnið Þjóðverja þegar hann spilaði. Ég held samt að þeir mæti með meira sjálfstraust í þennan leik en heima,

"Við erum líka fullir sjálfstrausts og höfum fulla trú á að við getum unnið þennan leik.

"Við megum ekki missa þá of langt frá okkur. Það getur reynst hættulegt. Ef við setjum pressu á þá þá koma þeir til með að brotna að mínu mati," sagði Guðjón Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×