Handbolti

Kári: Strákarnir segja að ég sé eins og Amish-maður

Henry Birgir Gunnarsson í Halle skrifar
Spéfuglinn Kári Kristján Kristjánsson var í banastuði sem fyrr eftir æfingu landsliðsins í gær og ræddi við Vísi um Amish-skeggið, lax og þunglynda, þýska áhorfendur.

"Þetta verða væntalega 11 þúsund þunglyndustu áhorfendurnir í Þýskalandi. Vonandi getum við lyft þessu upp. Þetta er svolítil ellismella samkoma en það er öl og bratwurst hjá þeim," sagði Kári Kristján léttur sem fyrr en það verður að segjast eins og er að handboltaáhorfendur í Þýskalandi eru flestir komnir af léttasta skeiði.

Kári skartar miklu skeggi þessa dagana sem hann hefur safnað síðustu fimm vikur en yfirvaraskeggið ætlar ekki að skila sér hjá honum.

"Þeir eru að skjóta á mig að ég sé eins og Amish-maður. Það er ekkert slæmt. Hestvagn og svona. Mottan er samt aum, það verður að viðurkennast," sagði Kári sem er til í að stofna Amish-apríl.

Kári lenti í ógöngum á leiðinni út og gleymdi meðal annars laxi um borð í flugvélinni.

"Það er verið að vinna gegn mér. Fyrst var það laxinn og svo týndi ég töskunni. Taskan fannst sem betur fer. Laxinn er undir rúmi. Það þarf að fela hann fyrir strákunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×