Inter Milan minnkaði forystu granna sinna í AC Milan niður í tvö stig í baráttunni um ítalska meistaratitilinn í knattspyrnu. Inter hafði betur gegn Lecce í deildinni í dag, 1-0, og var það Giampaolo Pazzini sem skoraði sigurmarkið á 52. mínútu.
Udinese er í þriðja sæti deildarinnar eftir heimasigur gegn Catania í dag, 2-0. Juventus náði loksins sigri eftir að liðið hafði betur gegn Brescia á heimavelli, 2-1. Reynsluboltinn Alessandro Del Piero skoraði sigurmarkið á 68. mínútu.
AC Milan er með 62 stig á toppi deildarinnar en nú hefur Inter náð að minnka forystuna niður í tvö stig og stefnir í æsilega baráttu um titilinn.
Úrslit dagsins í ítalska boltanum:
Fiorentina 2-2 AS Roma
Bari 1-2 Chievo
Bologna 1-1 Genoa
Inter Milan 1-0 Lecce
Juventus 2-1 Brescia
Sampdoria 0-1 Parma
Udinese 2-0 Catania
Inter minnkar forystu Milan í tvö stig
Jón Júlíus Karlsson skrifar
