Handbolti

Stelpurnar unnu Pólland í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir skoraði átta mörk gegn Pólverjum í dag.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir skoraði átta mörk gegn Pólverjum í dag. Mynd/Ole Nielsen
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta byrjar vel undir stjórn Ágústar Þórs Jóhannssonar en liðið vann 24-22 sigur á Póllandi í dag í æfingaleik í Tyrklandi eftir að hafa unnið heimastúlkur í gær. Íslenska liðið var 12-11 yfir í hálfleik.

Þetta var sögulegur sigur í dag því íslenska kvennalandsliðið hafði aldrei áður náð að vinna Pólland í A-landsleik kvenna. Liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína undir stjórn Ágústar en stelpurnar eru nú að undirbúa sig fyrir umspilsleiki á móti Úkraínu.

„Að sögn Einars Jónssonar aðstoðarlandsliðsþjálfara lék liðið frábæra 6:0 vörn í leiknum með þær Örnu Sif Pálsdóttir og Stellu Sigurðardóttir fyrir miðju og voru báðir markverðirnir mjög sterkir á bak við varnarleikinn," sagði frétt á heimasíðu HSÍ og þar segir ennfremur:

„Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Rut Jónsdóttir fóru svo fyrir sóknarleiknum og áttu báðar mjög góðan leik. Þær Brynja Magnúsdóttir og Marthe Sördal skoruðu í dag sín fyrstu mörk fyrir Íslands hönd og kom Brynja sérstaklega sterk inn á mikilvægu augnabliki í leiknum."

Á morgun leikur liðið svo óopinberan æfingarleik gegn Pólverjum en leiknar verða 3 sinnum 25 mínútur.





Ísland-Polland 24-22 (12-11)Mörk Íslands:  Hrafnhildur Ósk Skúladóttir 8, Rut Jónsdóttir 5, Arna Sif Pálsdóttir 3, Hanna G. Stefánsdóttir 3, Brynja Magnúsdóttir 1, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 1, Marthe Sördal 1, Karen Knútsdóttir 1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1.

Í markinu lék Íris Björk Símonardóttir í 40 mínútur og varði 12 bolta og Guðrún Ósk Maríasdóttir í 20 mínútur og varði 7 bolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×