Handbolti

Þórey Rósa: Samheldinn hópur í landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórey Rósa er hér lengst til vinstri. Með henni á myndinni eru Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir.
Þórey Rósa er hér lengst til vinstri. Með henni á myndinni eru Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir. Mynd/Valli
Þórey Rósa Stefánsdóttir er nú aftur komin í íslenska landsliðið í handbolta eftir nokkra fjarveru. Reyndar hefur hún ekkert spilað síðan hún byrjaði að spila á meginlandi Evrópu fyrir tæpum tveimur árum síðan.

Hún var fyrst í Hollandi í eitt og hálft ár en hefur leikið með þýska liðinu Oldenburg síðan í febrúar.

„Þetta hefur gengið ágætlega hjá mér," sagði hún í samtali við Vísi en Ísland mætir í dag sterku liði Svíþjóðar í æfingaleik í Vodafone-höllinni. Leikurinn hefst klukkan 16.00.

„Oldenburg er með mjög gott lið sem hefur verið að berjast um meistaratitilinn í Þýskalandi auk þess sem að það hefur náð góðum árangri í Evrópukeppninni."

„Mér gekk nokkuð erfiðlega fyrst um sinn að fá að spila en það gekk betur eftir því sem leið á leiktíðina. Mér tókst svo að skora einhver mörk og fannst mér nýta þær mínútur sem ég fékk mjög vel."

Ísland keppti á sínu fyrsta stórmóti í desember síðastliðnum en Þórey Rósa missti af því. „Ég er núna búin að bíða eftir þessu tækifæri í tvö ár og var ákveðin í því að standa mig þegar ég það kæmi. Ég komst núna í gegnum niðurskurðinn og er ánægð með það."

„Það ríkir mikil samkeppni um stöður í landsliðinu og þannig á það að vera. Mér líst rosalega vel á hópinn - hann er mjög samheldinn og góður. Ég er spennt fyrir þessum leikjum sem eru fram undan. Þetta verður vissulega erfitt en á góðum degi getum við vel staðið í þessum sterku liðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×