Handbolti

Rakel Dögg: Spiluðum betur í kvöld

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rakel var markahæst í kvöld.
Rakel var markahæst í kvöld.
Rakel Dögg Bragadóttir átti stórleik fyrir Ísland í tapinu gegn Svíþjóð og eins og alþjóð veit eru hún mikil keppnismanneskja og vildi ekki heyra minnst á að eins marks tap gegn Svíþjóð væru í raun góð úrslit.

„Það er ekkert smá fúlt að tapa þessum leik. Við eigum heilmikið erindi í þetta og það er mjög svekkjandi að tapa báðum þessum leikjum. Mér fannst leikurinn í kvöld betri. Við gerðum færri mistök og spiluðum frábæra vörn, í báðum leikjunum. Í kvöld var sóknarleikurinn betri þó við skorum bara þremur mörkum meira. Það var margt jákvætt í þessum leik,“ sagði Rakel Dögg.

„Við erum að spila á móti hrikalega sterku liði sem vann silfur á EM og við vitum að þær unnu Úkraínu og við höfum trú á að við getum unnið Úkraínu á sunnudaginn næsta,“ en sigri liðið Úkraínu í umspilsleikjunum tveimur vinnur liðið sér sæti á HM í Brasilíu.

„Við erum með þéttan og breiðan hóp. Við höfum spilað lengi saman sem lið þrátt fyrir ungan meðalaldur. Við þekkjum hverja aðra vel og höfum æft saman frá því í byrjun maí og ættum að vera þokkalega slípaðar,“ sagð Rakel sem sagði nýja þjálfara liðsins vera að ná vel til leikmanna.

„Þjálfararnir hafa lagt mikla áherslu á agaðan leik, bæði í sókn og vörn og reyna að fækka tæknifeilum og að er að skila sér í dag. Þeir hafa ekki gert stórtækar breytingar en það er margt betra í okkar leik. Leikurinn er betur slípaður hjá okkur,“ sagði Rakel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×