Ísland er í fimmta sæti í Evrópubikarnum í frjálsum íþróttum þegar fjórum greinum er lokið. Keppnin stendur yfir á Laugardalsvelli. Aserbaídjsan er í efsta sæti með 53 stig en Ísland er í 5.-6. sæti ásamt Lúxemborg með 37 stig.
Arna Ýr Jónsdóttir varð í sjötta sæti af níu keppendum í stangarstökki kvenna. Hún stökk 3,00 metra en hún á best 3,20.
Bergur Ingi Pétursson varð þriðji í sleggjukasti í morgun. Bergur Ingi kastaði 66,79 metra í þriðja kasti sínu. Dzmitry Marshin frá Aserbaídsjan kastaði lengst, 71,10 metra.
Keppni í sleggjukasti fór fram í Kaplakrika þar sem kasthringurinn á Laugardalsvelli uppfyllti ekki öryggiskröfur.
Stefanía Valdimarsdóttir varð í fimmta sæti af ellefu keppendum í 400 metra grindahlaupi kvenna. Stefanía hljóp á 63,31 sekúndum. Amalia Sharoyan frá Armeníu sigraði á 60,40 sekúndum.
Björgvin Víkingsson varð í þriðja sæti af ellefu keppendum í 400 metra grindahlaupi karla. Björgvin hljóp á 52,96 sekúndum. Sigurvegari varð Ibrahim Ahmadov frá Aserbaídsjan á 52,31 sekúndum.
Vísir heldur áfram að fylgjast með gangi mála á Laugardalsvelli.
Ísland í fimmta sæti að loknum fjórum greinum
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
